Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við þrjá nýja leikmenn um að leika með Selfyssingum í 1. deild karla á komandi leiktíð. Þeir skrifuðu allir undir samninga í gærkvöldi.
Þetta eru Giordiano Pantano, 23 ára ítalskur vinstri bakvörður, Iván “Pachu” Martínez Gutiérrez, 27 ára miðjumaður og James „J.C.“ Mack III, 27 ára bandarískur sóknarmaður.
„Þeir hafa allir verið á reynslu hjá okkur undanfarnar tvær vikur og mér líst mjög vel á þá. Þetta eru frábærir karakterar sem munu hjálpa okkur við að gera ungu heimastrákana okkar betri. Þeir geta allir spilað margar stöður og það mun hjálpa okkur við uppbyggingu liðsins,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is.
„Þessir strákar koma allir til okkar á breyttum forsendum. Þeir verða allir í vinnu að hluta til eða öllu leiti og munu þannig taka virkari þátt í samfélaginu okkar,“ bætti Gunnar við.
Pantano lék síðast með AC Lumezzane í 3. deildinni á Ítalíu, Pachu kemur frá Gjøvik-Lyn í 3. deildinni í Noregi og J.C. Mack frá Ekenäs í 3. deildinni í Finnlandi.