Kvennalið Selfoss í handbolta er komið í sumarfrí eftir 21-23 tap gegn Gróttu í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum Olísdeildarinnar í Vallaskóla í gær.
Selfoss hafði frumkvæðið í fyrri hálfleik og leiddi 7-3 þegar rúmar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum. Varnarleikur Selfoss var frábær í upphafi leiks en þegar leið á fyrri hálfleikinn keyrði Grótta upp hraðann og náði að jafna, 11-11 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var hnífjafn og æsispennandi. Þegar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum leiddi Grótta 14-16 en Selfoss náði að jafna, 20-20, þegar sex mínútur voru eftir af leiknum. Grótta komst aftur yfir en Selfoss fékk tækifæri á lokakaflanum sem fóru í súginn. Grótta náði að innsigla tveggja marka sigur í síðustu sókn leiksins – og þar með sæti í undanúrslitunum.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 7/2 mörk, Adina Ghidoarca skoraði 6, Elena Birgisdóttir 3, Steinunn Hansdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir 2 og Carmen Palamariu 1. Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 10 skot í marki Selfoss.