Selfoss minnkaði muninn í 2-1 í einvíginu gegn Fjölni um laust sæti í Olís-deildinni í handbolta í kvöld. Lokatölur urðu 33-34 í Dalhúsum í kvöld eftir tvíframlengdan leik.
Leikurinn var jafn og æsispennandi allan tímann og liðin skiptust á að hafa undirtökin. Þegar leið að leikslokum virtust Fjölnismenn ætla að taka leikinn í sínar hendur en Teitur Örn Einarsson tryggði Selfyssingum framlengingu þegar hann jafnaði 25-25 á lokasekúndu leiksins.
Framlengingin var hnífjöfn og staðan 29-29 að henni lokinni svo aftur var framlengt. Selfoss náði svo undirtökunum í síðari hálfleik síðari framlengingarinnar, mest tveggja marka forskoti en Fjölnir náði að minnka muninn í eitt mark í lokin.
Leikurinn var hin besta skemmtun, jafn og spennandi frá upphafi til enda, mistök og frábær tilþrif á báða bóga. Það er því ljóst að liðin munu mætast í fjórða sinn á Selfossi kl. 16, sunnudaginn 1. maí. Með sigri í þeim leik tryggja Selfyssingar sér oddaleik á útivelli.
Teitur Örn Einarsson var markahæstur Selfyssinga með 9 mörk og Elvar Örn Jónsson skoraði 5.