Selfyssingar náðu að knýja fram oddaleik í viðureigninni við Fjölni um laust sæti í Olís-deild karla í handbolta. Fjórða leik liðanna lauk með sigri Selfoss í Vallaskóla í dag, 34-31.
Það var mögnuð stemmning í Vallaskóla í dag, smekkfullt hús og hávaðinn rosalegur. Leikurinn var líka stórskemmtilegur og æsispennandi.
„Ég ætla að byrja á þakka fólkinu okkar fyrir að mæta, þetta fólk er frábært. Troðfullur Vallaskóli, þetta hefur örugglega ekki gerst síðan Mjaltavélin var upp á sitt besta á síðustu öld. Þetta var geggjað – stemmningin og leikgleðin, þetta var allt saman með okkur og það var það sem skilaði þessum sigri í dag. Þetta var jafn leikur tveggja frábærra liða, en „momentið“ var okkar í lok leiks og við kláruðum þetta,“ sagði afmælisdrengurinn Örn Þrastarson í samtali við sunnlenska.is í leikslok.
„Við þurfum sama stuðning í oddaleiknum á miðvikudaginn. Fólk þarf að mæta og ég skora á Guðmund Tyrfingsson að splæsa í rútur fyrir fólkið og koma því í Grafarvoginn. Saman siglum við þessum heim og komum Selfossi í úrvalsdeildina þar sem liðið á heima. Það gáfu allir allt sitt í þetta verkefni í dag og við munum gera það aftur á miðvikudaginn.“
Jafnt var á nánast öllum tölum upp í 6-6 þegar tíu mínútur voru liðnar af leiknum. Þá náðu Selfyssingar tveggja marka forskoti, 8-6, en Fjölnir jafnaði 9-9. Aftur tóku Selfyssingar á skrið og komust í 13-10 en Fjölnir kom aftur til baka og jafnaði fyrir leikhlé, 15-15.
Fjölnismenn voru skrefinu á undan á upphafsmínútum síðari hálfleiks en munurinn var aldrei meiri en eitt mark. Selfyssingar áttu góðan kafla um miðjan hálfleikinn og náðu tveggja marka forskoti, 23-21. Fjölnir jafnaði 24-24 og jafnt var á öllum tölum upp í 31-31 þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Selfyssingar skoruðu hins vegar þrjú síðustu mörk leiksins. Atli Kristinsson stal boltanum á ögurstundu í stöðunni 32-31 og í kjölfarið átti Helgi Hlynsson einhverja rosalegustu markvörslu sem sést hefur í Vallaskóla. Atli fékk boltann aftur og innsiglaði 34-31 sigur.
Teitur Örn Einarsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Elvar Örn Jónsson skoraði 7, Hergeir Grímsson 4, Árni Guðmundsson, Atli Kristinsson og Eyvindur Hrannar Gunnarsson 3, Þórir Ólafsson 3/1 og þeir Sverrir Pálsson, Rúnar Hjálmarsson og Andri Már Sveinsson skoruðu allir 1 mark.
Birkir Fannar Bragason var frábær í marki Selfoss í fyrri hálfleik, varði 13 skot í heildina og átti margar frábærar vörslur. Helgi Hlynsson varði svo fimm skot og hélt hreinu á lokakaflanum, en hann fékk eitt mark á sig úr víti í fyrri hálfleik.