Helgi Hlynsson, markvörður Selfoss, var einn af mönnum leiksins í kvöld þegar Selfoss vann Fjölni 24-28 í oddaleik og tryggði sér sæti í Olís-deildinni í handbolta á næsta keppnistímabili.
„Þetta var svaðalegt, ég hef ekki upplifað neitt svona í langan tíma. Við vorum bara rólegir fyrir leik, menn voru bara léttir, hlæjandi og að grínast. Það var kannski aðeins spenna í okkur í upphafi leiks en svo small þetta allt saman hjá okkur á réttum tíma í leiknum. Þetta einvígi í heild sinni var frábært, þó að það hafi ekki byrjað vel hjá okkur. Þetta var bara peningakast upp á það hvort liðið myndi komast upp. Fjölnir er með frábært lið og við líka, en á endasprettinum vorum við einum millimetra betri og það var það sem skildi liðin að,“ sagði Helgi.
Hann átti stóran þátt í góðu gengi liðsins í kvöld, varði sextán skot, þar af eitt vítaskot og stoppaði Fjölnismenn oft á mikilvægum augnablikum.
„Maður getur ekki annað þegar þetta er svona leikur, ég veit ekki hvernig ég á að útskýra það. Þetta var æðislegt og ég var tilbúinn allan tímann. Stuðningurinn úr stúkunni var frábær, við áttum þetta hús, guð minn góður. Skjálfti var frábær, fólkið sem kom var frábært. Stemmningin á Selfossi er bara æðisleg, ég held að það sé ekkert lið á landinu sem á svona frábæra stuðningsmenn,“ sagði Helgi að lokum.