„Þetta var hreint út sagt ótrúleg upplifun, að fá að gera þetta hérna í kvöld með okkar fólki sem hefur verið hreint út sagt frábært í úrslitakeppninni og reyndar í allan vetur.
Við lentum þremur mörkum undir í seinni hálfleik en gáfumst ekki upp, við héldum áfram og þetta er ótrúlegt kvöld,“ sagði Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, eftir að lærisveinar hans tryggðu sér sæti í efstu deild karla í handbolta í kvöld.
Selfoss lenti 2-0 undir í einvíginu gegn Fjölni en vann síðustu þrjá leikina og kórónaði rimmuna með frábærum lokakafla í kvöld og 24-28 sigri.
„Þetta byrjaði í leik þrjú. Við vorum níu sekúndum frá því að tapa honum og þá hefði einvígið verið búið. En við neituðum að gefast upp. Við neituðum líka að gefast upp í kvöld. Við neituðum að gefast upp í öllu einvíginu. Í stöðunni 2-0 hefði verið auðvelt að taka eitthvað af þessum hundrað afsökunum sem lágu í kringum okkur. Það voru margir búnir að afskrifa okkur þá, en við ákváðum að mæta og eftir sigurinn í leik þrjú var ekki annað hægt en að fylgja honum eftir með sigri á heimavelli í leik fjögur. Í kvöld nutum við bara stundarinnar og höfðum fyrst og fremst gaman af því sem við vorum að gera,“ sagði Stefán. Selfyssingar voru þó ekki sannfærandi framan af leiknum.
„Nei, Fjölnir breytti um vörn í kvöld þannig að sóknarleikur okkar riðlaðist og við vorum lengi að koma okkur í gang. Við náðum varnarleiknum okkar ekki heldur í gang í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik stíga margir leikmenn upp hjá mér sóknarlega og vörnin smellur. Fjölnir skorar nánast bara mörk eftir fráköst og hraðaupphlaup á löngum kafla og það er kaflinn sem snýr þessu hjá okkur, þar sem við vorum þremur mörkum undir en verðum fjórum mörkum yfir. Það var ótrúlega magnaður kafli.“
En hvenær áttaði Selfossþjálfarinn á því að þetta væri komið? „Það var þegar voru tuttugu sekúndur eftir og við í sókn fjórum mörkum yfir. Þá svona fór ég að reikna að við gætum ekki tapað héðan í frá,“ segir Stefán og hlær. „Nei, að öllu gamni slepptu. Lokakaflinn okkar var frábær. Þeir fengu brottvísanir undir lokin og við héldum okkur inná. Það er kannski það sem var að fella okkur framan af einvíginu. Við vorum gífurlega klókir í kvöld og þó varnarleikurinn hafi ekki verið nógu góður lengst þá þurftum við bara síðasta korterið til að klára þetta. Þetta small saman þá og það skilaði okkur í efstu deild,“ sagði Stefán og sagði stuðninginn úr stúkunni hafa gefið liðinu mikið.
„Selfyssingar eru frábærir stuðningsmenn og þeir gáfu okkur mikinn kraft. Það var ekki hægt annað en að dansa með þeim, þetta var algjör snilld. Þetta var ótrúlega gaman.“