Í dag var leikið í 1., 2. og 3. deild karla í knattspyrnu. Sunnlensk lið voru þar í eldlínunni en þau töpuðu öll leikjum sínum.
Í 1. deildinni töpuðu Selfyssingar sannfærandi á útivelli gegn Keflavík, 3-0. Keflvíkingar skoruðu tvívegis snemma í fyrri hálfleik og staðan var 2-0 í leikhléi. Þriðja markið leit svo dagsins ljós þegar fimmtán mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og þar við sat.
Ægir sótti Aftureldingu heim í Mosfellsbæ í 2. deildinni. Afturelding komst yfir á 12. mínútu en Ingólfur Þórarinsson jafnaði metin fyrir Ægi tíu mínútum síðar. Staðan var 1-1 í hálfleik en Afturelding komst í 3-1 á tíu mínútna kafla í upphafi seinni hálfleiks. Ægismenn náðu að klóra í bakkann undir lokin með sjálfsmarki Aftureldingar en lokatölur urðu 3-2.
Á Hvolsvelli tók KFR á móti Einherja í 3. deildinni. Milan Djurovic kom Rangæingum á bragðið strax á 7. mínútu og heimamenn héldu 1-0 forystunni fram að leikhléi. Á 2. mínútu seinni hálfleiks jöfnuðu gestirnir og þeir náðu svo að skora sigurmarkið um miðjan seinni hálfleikinn.