Selfyssingar unnu þrenn gullverðlaun á JJ-móti Ármanns í frjálsum íþróttum sem fram fór á Laugardalsvellinum í gærkvöldi.
Kristinn Þór Kristinsson sigraði í 400 m hlaupi á 51,61 sek og Thelma Björk Einarsdóttir sigraði í kúluvarpi, kastaði 11,58 m. Eyrún Halla Haraldsdóttir varð þriðja í kúluvarpinu, kastaði 10,40 m og vann svo silfurverðlaun í kringlukasti, kastaði 34,68 m.
Fjóla Signý Hannesdóttir sigraði í 100 m grindahlaupi á tímanum 15,51 sek og hún hreppti svo bronsið í 400 m hlaupi á tímanum 62,30 sek.
Ólafur Guðmundsson vann tvenn silfurverðlaun á mótinu. Hann kastaði kúlunni 12,24 m og kringlunni 40,12 m.
Þá jafnaði Harpa Svansdóttir sinn besta árangur í langstökki, stökk 5,05 m og varð fjórða.