Selfoss fékk Þór Akureyri í heimsókn á JÁVERK-völlinn í dag í Inkasso-deild karla í knattspyrnu. Gestirnir fóru með sigur af hólmi, 0-1, í jöfnum leik.
„Mér fannst við vera með yfirhöndina varðanadi það að vera með boltann og að skapa álitleg færi en þeir spiluðu bara nokkuð vel úr þessu,“ sagði Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik.
„Mér fannst við byrja leikinn á mjög lélegu tempói. Fyrri hálfleikurinn var ákveðið vandamál, þar vorum við að skapa færi fyrir þá. Þar gefum við óbeina aukaspyrnu og annað. Við byrjum rólega í seinni hálfleik en þetta eru 45 mínútur. Við þurfum að sýna aga og skipulag.“
Liðin gáfu fá færi á sér í upphafi leiks en Þórsarar höfðu yfirhöndina á miðsvæðinu en tókst ekki að skapa sér færi. Eina mark leiksins kom á 40. mínútu og það skoruðu Þórsarar úr óbeinni aukaspyrnu í vítateig Selfyssinga.
Vignir Jóhannesson, markvörður Selfoss, var þá dæmdur brotlegur en hann tók boltann með höndum eftir „sendingu“ frá Gio Pantano. Rándýr ákvörðun hjá dómara leiksins, sem átti mjög slakan dag heilt yfir.
Besta færi Selfoss í fyrri hálfleiknum fékk J.C. Mack þegar hann komst framhjá markverði Þórs á lokamínútunni en skaut í stöngina úr mjög þröngu færi.
Þórsarar höfðu undirtökin framan af síðari hálfleik án þess að fá teljandi færi en þegar leið að leikslokum þyngdust sóknir Selfyssinga. Færin voru heldur ekki mörg þeim megin en ítrekað sköpuðu Selfyssingar mikinn usla í vítateig Þórs eftir föst leikatriði á lokakaflanum.
Sigur Þórsara lyftir þeim upp í 4. sætið með 10 stig en Selfyssingar eru komnir niður í 9. sætið og eru með 6 stig.
Næsti deildarleikur liðsins er á heimavelli gegn Fjarðabyggð, næstkomandi sunnudag, en í millitíðinni leikur liðið í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar, gegn Víði á heimavelli á fimmtudagskvöld.