Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson skoraði fyrra mark Íslands 2-1 sigri á Austurríki í lokaleik riðlakeppni Evrópumeistaramótsins í knattspyrnu í dag.
Með sigrinum tryggðu Íslendingar sér annað sæti riðilsins og mætir liðið Englandi í 16-liða úrslitum næstkomandi mánudag.
„Þessar síðustu 20 voru svo erfiðar að ég var farinn að biðja og ég veit ekki hvað,“ sagði Jón Daði í samtali við fotbolti.net.
Hann var spurður hvernig honum leið þegar hann skoraði markið.
„Ég veit það ekki einu sinni, þetta var svo æðislegt og þetta er eitthvað sem alla sem byrja að spila fótbolta, dreymir um. Að skora á EM, í fyrsta skipti í sögu Íslands er ótrúlegt og ógeðslega gaman.“
Ísland spilar við England í 16-liða úrslitunum á mánudag og er Jón Daði afar spenntur fyrir því.
„Akkúrat, maður horfði á þetta stöðugt þegar maður var á Íslandi og maður ólst upp við að horfa á enska boltann. Svo hélt maður með Englandi líka öllum þessum stórmótum. Það verður æðislegt og ég get ekki beðið.“