Kvennalið Selfoss missti niður unninn leik þegar liðið mætti KR á útivelli í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur urðu 4-3 en KR skoraði þrjú mörk undir lokin.
„Það voru ekki bara síðustu tíu mínúturnar sem voru vandamálið. Við mættum einfaldlega ekki til leiks í dag og KR vann fyrir stigunum,“ sagði Valorie O’Brien, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Við vorum í góðri stöðu þegar tíu mínútur voru eftir en þá hættum við að gera einföldu hlutina. KR vann betur saman sem lið og hagnaðist á því að samvinnuna skorti hjá okkur.“
Lauren Hughes kom Selfyssingum yfir á 9. mínútu og Selfoss hélt forystunni fram að hálfleik, 0-1.
KR-ingar jöfnuðu metin þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik, en Hughes kom Selfossi aftur yfir aðeins mínútu síðar og Anna María Friðgeirsdóttir jók forskotið enn frekar á 63. mínútu.
Lokakaflinn var hins vegar arfaslakur hjá Selfyssingum. KR skoraði þrjú mörk á sjö mínútna kafla undir lokin, og tryggði sér 4-3 sigur þegar fjórar mínútur voru eftir.
Selfoss er nú í sjötta sæti deildarinnar, en hefði með sigri komist upp í annað sætið. Liðið hefur sex stig en KR er í 8. sæti með fimm stig.