Selfoss sótti botnlið Leiknis Fáskrúðsfirði heim í Fjarðabyggðarhöllina á Reyðarfirði í Inkassodeildinni í knattspyrnu í dag.
Selfyssingar komust yfir strax á 2. mínútu leiksins þegar Svavar Berg Jóhannsson fylgdi eftir skoti sem markvörður Leiknis hafði varið frá Pachu.
Leikurinn var tíðindalítill eftir markið en Leiknismenn náðu svo að jafna á 30. mínútu með skoti úr teignum sem breytti um stefnu af varnarmanni.
Þrátt fyrir nokkrar góðar sóknir í síðari hálfleik tókst Selfyssingum ekki að skora. Þeir voru sterkari aðilinn í seinni hluta leiksins en Leiknismenn vörðust af krafti og náðu að verja stigið.
Eftir tólftu umferðina eru Selfyssingar enn í 6. sætinu, nú með 16 stig en Leiknir er áfram í botnsætinu með 8 stig.