Bikarævintýri karlaliðs Selfoss í knattspyrnu er lokið þetta árið en liðið tapaði í kvöld í undanúrslitum þegar Valur kom í heimsókn á JÁVERK-völlinn.
Lokatölur voru 1-2, en þetta er í fyrsta skipti síðan árið 1969 sem Selfoss kemst í undanúrslit.
„Það var leiðinlegt að tapa þessu. En ég held að við höfum gefið allt okkar í þetta. Við erum stoltir af okkar frammistöðu og það að komast svona langt í keppninni er afrek í sjálfu sér,“ sagði Andy Pew, fyrirliði Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Fyrri hálfleikur var markalaus en Selfyssingar fengu tvö mjög góð marktækifæri. Valur komst svo í 0-2 í seinni hálfleik en JC Mack minnkaði muninn með skalla eftir hornspyrnu á 89. mínútu. Selfoss gerði harða hríð að marki Vals í uppbótartíma en gestirnir héldu út.
„Við höfum sýnt það fyrr í sumar að við höfum baráttuanda og við gefumst aldrei upp þó að við lendum undir. Við höfum skorað sigurmörk seint í leikjum og Gunni [Borgþórs] hefur stimplað það inn í okkur að hætta aldrei þó að við séum einu, tveimur eða jafnvel þremur mörkum undir,“ sagði Andy.
„Við lentum aldrei undir pressu í fyrri hálfleik og vorum að halda boltanum ágætlega. Á köflum vorum við betri en þeir og við fengum betri færi en þeir, áttum meðal annars stangarskot í fyrri hálfleik. Í upphafi seinni hálfleiks fengu þeir „soft“ aukaspyrnu. Hann fór auðveldlega niður og þeir refsuðu okkur með góðu marki,“ sagði Andy. Valur komst svo í 0-2 á 81. mínútu en Selfoss var hársbreidd frá því að jafna í lokin.
„Við getum verið stoltir af því hvernig við kláruðum leikinn. Þó að ég sé svekktur núna þá er þetta frábær dagur fyrir Selfoss. Fyrir félagið og fólkið í bænum. Það er ekki oft sem við fáum svona marga áhorfendur á völlinn og það væri frábært ef þetta væri mætingin hér í hverri viku. Ef það væri þannig þá værum við í toppbaráttu í deildinni,“ sagði Andy að lokum.