Slæmur fyrri hálfleikur varð Selfyssingum að falli þegar liðið heimsótti Stjörnuna í Garðabæ í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.
Stjörnukonur réðu lögum og lofum í fyrri hálfleik þó að þær hafi ekki skapað sér mörg marktækifæri, og Selfyssingar ógnuðu lítið.
Strax á 7. mínútu kom Agla María Albertsdóttir Stjörnunni yfir með skoti úr vítateignum eftir slæman varnarleik Selfyssinga. Ekki skapaðist hætta aftur upp við mark Selfoss fyrr en eftir um hálftíma leik en Stjörnukonur fengu þá tvö færi með stuttu millibili. Í því síðara varði Chanté Sandiford vel í marki Selfoss.
Sandiford gerði sig hins vegar seka um slæm mistök á 40. mínútu þegar Harpa Þorsteinsdóttir átti slakt skot utan af velli. Boltinn fór af höndunum á Sandiford í stöngina og þaðan lak hann í netið. Sannarlega slysalegt.
Staðan var 2-0 í hálfleik en það var allt annað Selfosslið sem mætti til leiks í seinni hálfleik. Þær stóðu vörnina betur og gekk betur að loka svæðum og Stjörnukonur komust ekkert áleiðis. Inn á milli sáust fín tilþrif á miðjunni hjá Selfyssingum þó að færin hafi verið fá.
Á 60. mínútu átti Valorie O’Brien skot frá miðju yfir markmann Stjörnunnar sem stóð framarlega í teignum. Góð tilraun en boltinn fór framhjá markinu. Fjórum mínútum síðar áttu Stjörnukonur skot í þverslána en þar við sat. Liðin komust ekkert áleiðis í sókninni og leikurinn einkenndist af baráttu á miðjunni.
Síðustu tíu mínúturnar voru þó mjög fjörugar. Á 81. mínútu minnkaði Unnur Dóra Bergsdóttir muninn í 2-1 eftir skyndisókn Selfoss og frábæra sendingu innfyrir frá Kristrúnu Rut Antonsdóttur. Fyrsta meistaraflokksmark Unnar, sem er 16 ára gömul.
Selfyssingar höfðu ekki kraft í að bæta við mörkum en Stjarnan gerði harða hríð að marki Selfoss undir lokin. Á 85. mínútu áttu þær stangarskot og komust í dauðafæri tveimur mínútum síðar auk þess sem aukaspyrna sveif rétt framhjá Selfossmarkinu á 88. mínútu.
Það var svo Harpa Þorsteinsdóttir sem gerði endanlega út um leikinn með marki í uppbótartíma þegar hún dansaði í gegnum Selfossvörnina og tryggði þeim bláu 3-1 sigur.
Selfoss hefur nú 10 stig í 7. sæti deildarinnar en framundan eru mikilvægir leikir gegn ÍA, KR og FH sem ásamt Selfyssingum skipa fjögur neðstu sætin á stigatöflunni.