Selfoss og Haukar gerðu 1-1 jafntefli þegar liðin mættust á Ásvöllum í Hafnarfirði í 1. deild karla í knattspyrnu í dag.
Fyrri hálfleikur var jafn og markalaus. Haukar voru sprækari framan af en Selfyssingar áttu góðan kafla undir lok fyrri hálfleiks. 0-0 í hálfleik.
Selfossliðið var sterkari aðilinn í seinni hálfleik og átti nokkrar álitlegar sóknir. Svavar Berg Jóhannsson braut svo ísinn á 60. mínútu með góðu skoti úr teignum, 0-1. Selfyssingar voru nær því að bæta við mörkum, og í raun var fátt sem benti til þess að Haukar kæmu til baka. Þeim tókst það þó í uppbótartíma þegar fyrrum leikmaður Selfoss, Elton Fufura Barros jafnaði metin með fallegu marki.
Þetta var tíunda jafntefli Selfyssinga í sumar. Ein umferð er eftir í 1. deildinni og ljóst að Selfoss mun ekki ná Fram og Haukum að stigum. Liðið er nú í 8. sæti með 25 stig.