Það var gríðarleg stemmning í fullsetnu íþróttahúsi Vallaskóla í kvöld þegar Selfoss lék sinn fyrsta heimaleik í Olís-deild karla í handbolta í fimm ár.
Haukar komu í heimsókn í kvöld og höfðu betur eftir hörkuleik. Selfyssingum gekk illa að sýna sitt rétta andlit í fyrri hálfleik, en mættu tvíefldir til seinni hálfleiks. Staðan var 12-15 í leikhléi en Selfoss leiddi 21-19 eftir tíu mínútur í seinni hálfleik.
Þá tók við slæmur kafli þar sem Haukarnir gengu á lagið og náðu góðu forskoti. Selfyssingum tókst þó að gera lokamínúturnar spennandi en herslumuninn vantaði í síðasta kafla leiksins.
„Við náðum vörninni of seint í gang og vorum of lengi að ná tökum á leiknum. Það var lítið í gangi í fyrri hálfleik, sérstaklega varnarlega. Þegar við náðum að þétta það í seinni hálfleik þá var það allt önnur staða. Þá vorum við hrikalega góðir,“ sagði Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Í hálfleik vorum við staðráðnir í því að spila til loka og sjá hvort við fengjum ekki eitthvað út úr þessum leik. Það gekk ekki núna en við gerðum tilkall til þess og sýndum að við eigum heima í þessari deild. Við erum ánægðir með fjögur stig af fyrstu sex. En þetta er langt mót og við þurfum að halda áfram að sýna að við eigum heima í deildinni,“ sagði Stefán.
Teitur Örn Einarsson var markahæstur Selfyssinga með 8/3 mörk. Guðni Ingvarsson skoraði 7, Elvar Örn Jónsson 6/1, Einar Sverrisson 6, Andri Már Sveinsson 3 og Hergeir Grímsson 1. Grétar Ari Guðjónsson varði 6/1 skot í marki Selfoss og Helgi Hlynsson 6.