Dagný Brynjarsdóttir varð um helgina bandarískur deildarmeistari í knattspyrnu með Portland Thorns og Guðmundur Þórarinsson og félagar í Rosenborg tryggðu sér Noregsmeistaratitilinn.
Portland mætti Sky Blue á útivelli í lokaumferð deildarkeppninnar í nótt og sigraði 3-1. Dagný hóf leikinn á varamannabekknum en kom inná á 70. mínútu.
Fjögur efstu liðin í deildinni keppa nú um bandaríska meistaratitilinn en Portland mætir Western New York Flash í undanúrslitum. Sigurliðið í þeim leik leikur svo til úrslita gegn Washington Spirit eða Chicago Red Stars.
Í Noregi fögnuðu Guðmundur Þórarinsson og félagar í Rosenborg norska meistaratitlinum síðastliðinn laugardag, á ótrúlega sannfærandi hátt. Rosenborg sigraði þá Molde 3-1 og spilaði Guðmundur allan leikinn. Rosenborg hefur haft mikla yfirburði á tímabilinu en sjö umferðir eru ennþá eftir af deildarkeppninni.