Selfoss féll úr Pepsi-deildinni – „Svíður mjög sárt“

Kvennalið Selfoss er fallið úr Pepsi-deildinni í knattspyrnu eftir fimm ára veru. Selfoss gerði 0-0 jafntefli við Fylki í lokaumferðinni á meðan KR sigraði ÍA 2-3 og því eru Selfyssingar fallnir.

„Fram að rauða spjaldinu var allt að ganga upp hjá okkur, miðað við hvernig við höfðum sett leikinn upp. Við vorum að fá fullt af færum og héldum Fylki inni á þeirra eigin vallarhelmingi. Boltinn vildi ekki inn. Það verður að viðurkennast að dómararnir eiga sinn þátt í þessu. Þeir voru að leyfa Fylki að spila mjög gróft á okkur. Ekki það að ég sé að reyna að réttlæta hegðun okkar leikmanns, sem braut af sér og fékk rautt spjald, en það breytti virkilega leiknum,“ sagði Guðjón Bjarni Hálfdánarson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Ég veit ekki hversu oft tréverkið varð fyrir barðinu á boltanum í kvöld og Lauren fékk þrjú dauðafæri á fjærstöng sem hefðu getað komið okkur yfir í leiknum. Baráttan var til staðar, hjartað var til staðar, færin voru til staðar en við kláruðum ekki leikinn,“ sagði Guðjón en þegar KR komst yfir gegn ÍA undir lokin, urðu Selfyssingar að skora.

„Við vissum að við þurftum mark í lokin og ég er mjög svekktur með að hafa ekki náð því. Það er virkilega svekkjandi að falla því stelpurnar voru að leggja sig fram. Í síðustu átta leikjunum erum við inni í jöfnum leikjum en vantar að skora markið. Það svíður mjög sárt. Þetta sumar varð mjög erfitt hjá okkur, leikmannahópurinn okkar er lítill og erlendu leikmennirnir okkar brugðust liðinu algjörlega í sumar og við gripum of seint inn í það,“ sagði Guðjón ennfremur en hann tilkynnti eftir leik að þetta hafi verið síðasti leikur hans í þjálfarastólnum hjá liðinu.

Rauða spjaldið vendipunkturinn
Leikurinn var opinn og fjörugur í fyrri hálfleik og bæði lið fengu ágæt færi. Selfyssingar fengu betri færi og boltinn fór tvívegis í tréverkið á Fylkismarkinu.

Staðan var 0-0 í hálfleik og Selfyssingar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti. Sharla Passariello átti stangarskot á 50. mínútu og nokkrum sekúndum síðar skaut Kristrún Rut Antonsdóttir í þverslána. Boltinn vildi alls ekki inn.

Á 54. mínútu varð vendipunktur í leiknum þegar Passariello sparkaði í leikmann Fylkis og fékk réttilega að sjá rauða spjaldið. Afdrifarík ákvörðun hjá Passariello því manni færi komust Selfyssingar hvorki lönd né strönd og misstu öll tök á leiknum.

Sjö mínútum fyrir leikslok bárust þau tíðindi að KR væri yfir gegn ÍA og því þurftu Selfyssingar á marki að halda til þess að forðast fall. Færin létu þó á sér standa og Selfoss fékk ekki meira en eitt hálffæri þegar komið var fram í uppbótartíma.

Lokatölur 0-0. Jafntefli dugði ekki til og Selfyssingar gengu tárvotir til búningsklefanna.

Fyrri greinLokað inn að Sólheimajökli
Næsta greinTvö rauð á Míluna í tapleik