Alfreð Elías stýrir kvennaliði Selfoss

Alfreð Elías Jóhannsson hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Selfoss í knattspyrnu. Jóhann Ólafur Sigurðsson verður honum til aðstoðar.

Adólf Ingvi Bragason, formaður knattspyrnudeildar Selfoss, tilkynnti þetta á lokahófi Selfoss í kvöld.

Alfreð Elías tekur við starfinu af Guðjóni Bjarna Hálfdánarsyni sem stýrði liði Selfoss í síðustu umferðum Pepsi-deildarinnar. Selfyssingar féllu niður í 1. deild í lokaumferðinni í gær.

Alfreð Elías kemur til Selfoss frá ÍBV þar sem hann stýrði meistaraflokki karla í Pepsi-deildinni seinni hluta tímabilsins í sumar, ásamt því að þjálfa 2. flokk karla.

Nýi Selfossþjálfarinn býr í Þorlákshöfn en hann þjálfaði karlalið Ægis um fimm ára skeið áður en hann fór til Vestmannaeyja og þar áður þjálfaði hann karlalið BÍ/Bolungarvíkur.

Jóhann Ólafur Sigurðsson, fyrrum leikmaður Selfoss, verður aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna ásamt því að þjálfa 2. flokk kvenna. Jóhann Ólafur var markvarðarþjálfari hjá karlaliði Fylkis í sumar, en hann lagði hanskana á hilluna haustið 2013 eftir að hafa leikið 99 deildarleiki með Selfyssingum í 1. deildinni.

Fyrri greinSelfossliðin töpuðu bæði 29-32
Næsta greinBannað að ganga á Sólheimajökul