Selfoss vann ævintýralegan sigur í framlengdum leik gegn ÍBV í 32-liða úrslitum Coca-Cola bikars karla í handbolta í Vallaskóla í dag.
„Þetta var náttúrulega geggjað og mig langar fyrst og fremst til þess að segja að stuðningurinn úr stúkunni var ólýsanlegur. Það munaði einu marki á liðunum í lok leiks og það eru stuðningsmennirnir sem eiga þetta mark. Það er klárt mál,“ sagði Andri Már Sveinsson, leikmaður Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Þetta var jafn leikur, við misstum þá aldrei frá okkur þó að við hefðum lent undir og sömuleiðis þá vorum við ekki að ná að byggja upp neitt forskot. Síðasta korterið þá fórum við að spila almennilega, á fullum krafti og það virkaði,“ sagði Andri Már, og viðurkenndi að framlengingin hafi verið erfið.
„Gamli var aðeins þreyttur í framlengingunni en annars leit þetta bara vel út hjá okkur og áhorfendurnir gáfu okkur auka orku. Þetta var alls ekki leiðinlegt.“
Selfyssingar eru þar með komnir í 16-liða úrslit en Andri Már vill ekkert gefa upp um markmið liðsins í keppninni. „Við tökum bara einn leik í einu og sjáum hvar við stöndum í lokin.“
Spennustigið hátt í lokin
Fyrri hálfleikurinn var jafn en Selfyssingar höfðu frumkvæðið og náðu tveggja marka forskoti um miðjan hálfleikinn, 8-6. Eyjamenn jöfnuðu 9-9 og komst yfir í kjölfarið en staðan var 13-16 í hálfleik.
ÍBV náði svo fjögurra marka forystu í upphafi seinni hálfleiks en þá tók við góður kafli Selfyssinga, sem náðu þó ekki að jafna fyrr en þrjár mínútur voru eftir af leiknum, 28-28. Ekki var meira skorað í venjulegum leiktíma en liðin klúðruðu hverri sókninni á fætur annarri enda spennustigið hátt. Framlenging varð raunin.
Selfyssingarnir voru sterkari í framlengingunni, komust strax tveimur mörkum yfir og hefðu getað aukið forskotið enn frekar. Munurinn hélst áfram 1-2 mörk en þegar nokkrar sekúndur voru eftir fengu Eyjamenn boltann og hefðu getað jafnað. Þeir fengu aukakast þegar leiktíminn var liðinn sem rataði í hendurnar á Helga Hlynssyni markverði Selfoss. Lokatölur 33-32.
Teitur Örn Einarsson var markahæstur Selfyssinga með 7/5 mörk, Einar Sverrisson og Andri Már Sveinsson skoruðu 6, Elvar Örn Jónsson 5, Guðni Ingvarsson 4, Alexander Egan 3 og þeir Eyvindur Hrannar Gunnarsson og Guðjón Ágústsson skoruðu 1 mark hvor.
Helgi Hlynsson var funheitur í marki Selfoss undir lokin. Hann varði 21 skot í leiknum og Grétar Ari Guðjónsson 1.