Frábær sigur á útivelli gegn Haukum

Selfoss vann frábæran sigur á Íslandsmeisturum Hauka þegar liðin mættust á Ásvöllum í Olís-deild kvenna í handbolta í dag. Lokatölur eftir dramatískan lokakafla urðu 27-28.

Selfyssingar voru miklu betri í fyrri hálfleik og náðu mest sex marka forystu, 6-12, en Haukar náðu að minnka muninn fyrir leikhlé, 13-15.

Seinni hálfleikurinn var jafn og spennandi en Haukar voru skrefinu á undan þegar kom að lokakaflanum. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir dreif sitt lið áfram í síðustu sóknunum og skoraði glæsileg mörk. Hún kom Selfyssingum í 28-27 þegar 40 sekúndur voru eftir.

Haukar uppskáru vítaskot í síðustu sókn sinni en Katrín Ósk Magnúsdóttir gerði sér lítið fyrir og varði vítið og tryggði Selfyssingum sigurinn.

Þetta var annar sigur Selfyssinga í deildinni en liðið hefur nú 4 stig í 6. sæti. Haukum mistókst að koma sér í toppsætið með tapinu í dag en liðið er í 3. sæti með 10 stig.

Hrafnhildur Hanna var markahæst Selfyssinga með 12 mörk. Áslaug Ýr Bragadóttir varði 9 skot í marki Selfoss og var með 41% markvörslu. Katrín Ósk varði 8 skot og var með 36% markvörslu.

Fyrri greinBjörgvin Freyr ráðinn þjálfari Ægis
Næsta greinFyrstu tölur: Framsókn tapar miklu