Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við tvo af reyndustu leikmönnum kvennaliðs félagsins um að leika með liðinu í 1. deildinni á næstu leiktíð.
Þetta eru þær Katrín Ýr Friðgeirsdóttir og Kristrún Rut Antonsdóttir.
Katrín Ýr er meðal leikjahæstu knattspyrnukvenna Selfoss en hún hefur leikið með liðinu alveg frá því meistaraflokkur kvenna var aftur settur á fót árið 2009. Katrín Ýr er 26 ára gömul, fjölhæfur leikmaður sem getur leyst margar stöður á vellinum. Hún hefur leikið 126 leiki fyrir Selfoss og skorað í þeim 55 mörk. Katrín Ýr spilaði 7 leiki í Pepsi-deildinni í sumar en hún sleit krossband í leik með Selfoss í ágúst síðastliðnum en stefnir á að komast á fullt inni á vellinum næsta sumar.
Kristrún Rut var valin leikmaður ársins hjá Selfyssingum í sumar og kom það fáum á óvart enda var hún mjög öflug á miðjunni hjá Selfyssingum í Pepsi-deildinni í sumar. Kristrún, sem er 22 ára gömul, hefur leikið með Selfyssingum frá árinu 2010 en hún hefur spilað 84 leiki fyrir félagið.
„Við erum hrikalega ánægð með að Katrín og Kristrún verði áfram með okkur næsta sumar. Þær eru reynslumiklir leikmenn og mikilvægar bæði innan vallar sem utan. Þær eru báðar með stórt Selfosshjarta og geta miðlað af reynslu sinni til yngri leikmanna í hópnum. Meistaraflokkurinn er nýbyrjaður að æfa á nýjan leik undir stjórn Alfreðs Elíasar Jóhannssonar og stemmningin í hópnum er góð,“ sagði Svava Svavarsdóttir, stjórnarmaður í knattspyrnudeildinni, í samtali við sunnlenska.is.