Selfoss tapaði mikilvægum stigum í Olís-deild kvenna í handbolta í dag þegar liðið tapaði fyrir Gróttu í Vallaskóla, 25-30.
„Þú getur rétt ímyndað þér hversu súrt þetta er. Við erum búin að tapa fjórum stigum í vetur á móti þessu liði, sem við eigum að vinna. Þessi vetur snýst allur um smáatriði og við erum búin að klikka núna tvisvar í leik þar sem við eigum að fá stig en fáum ekki, þökk sé okkar eigin frammistöðu en ekki andstæðingsins,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, eftir leik.
Leikurinn fór hægt af stað en fljótlega náði Grótta frumkvæðinu og forskot þeirra varð mest fimm mörk þegar rúmar tuttugu mínútur voru liðnar, 6-11. Þá kom frábær kafli hjá Selfyssingum sem skelltu í lás í vörninni og skoruðu fimm mörk í röð á fjögurra mínútna kafla. Þá var staðan orðin 11-11 en leikar stóðu 14-14 í hálfleik.
Seinni hálfleikur var mjög fjörugur og spennandi. Það var jafnt á öllum tölum upp í 25-25, þegar fimm mínútur voru eftir. Þá fór allt í baklás hjá Selfyssingum sem skoruðu ekki meira í leiknum á meðan Grótta skoraði fimm mörk í röð og tryggði sér öruggan sigur.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði 12/3 mörk fyrir Selfoss og var langmarkahæst. Adina Ghidoarca, Dijana Radojevic, Carmen Palamaru og Perla Albertsdóttir skoruðu allar 3 mörk fyrir Selfoss og Kristrún Steinþórsdóttir 1. Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 9 skot í marki Selfoss og Áslaug Ýr Bragadóttir 2.
Eftir leikinn er Selfoss í fallstæi, 7. sætinu með 4 stig en Grótta hefur 6 stig í 6. sæti deildarinnar.