Anna María Friðgeirsdóttir og Erna Guðjónsdóttir framlengdu í dag samninga sína við knattspyrnudeild Selfoss og munu leika með liði Selfyssinga í 1. deildinni á komandi leiktíð.
Anna María, sem er 25 ára gömul, er fjölhæfur leikmaður með frábæran spyrnufót en hún hefur á sínum ferli leikið bæði í vörninni, á miðjunni og í sókninni. Hún er leikjahæsta knattspyrnukona Selfoss frá upphafi en hún hefur leikið 164 leiki fyrir félagið. Í sumar varð hún leikjahæsti leikmaður Selfoss í Pepsi-deildinni með 80 leiki.
Erna, sem er tvítug, hefur leikið 89 leiki fyrir Selfoss, þar af 61 leik í Pepsi-deildinni. Hún er miðjumaður og býr yfir frábærri boltatækni og spyrnugetu. Erna hefur leikið sex leiki með U19 ára landsliði Íslands. Í vetur er hún í námi í Bandaríkjunum þar sem hún leikur með háskólaliði University of Kansas. Hún kemur til landsins um miðjan maí, um það leiti sem Íslandsmótið hefst.
Selfyssingar leika í 1. deildinni á næstu leiktíð eftir að hafa fallið úr Pepsi-deildinni í lokaumferðinni í sumar.
„Það var vissulega áfall að falla í sumar og það tók dálitla stund að koma sér í gírinn aftur en mér líst mjög vel á nýja þjálfarateymið og það er virkilega gaman á æfingum,“ segir Anna María. „Það eru ungar stelpur að koma inn í meistaraflokk í bland við leikmenn sem hafa mikla reynslu úr Pepsi-deildinni þannig að ég er mjög spennt fyrir framhaldinu hjá kvennafótboltanum á Selfossi. Þetta verður krefjandi verkefni en ég hef trú á því að við munum mæta mjög sterkar til leiks.“
Erna segist kunna mjög vel við sig í Kansas þar sem hún æfir við bestu aðstæður. „Þetta er frábær lífsreynsla og það er hugsað mjög vel um okkur þarna úti. Ég stefni á að mæta í góðu formi til Íslands og hjálpa liðinu að komast aftur á réttan stað, í Pepsi-deildina. Ég er búin að mæta á æfingar í jólafríinu, þetta hafa verið fínar æfingar og hópurinn er samansettur af snillingum þannig að ég hef mikla trú á þessu. Það verður gaman að klæða sig í Selfosstreyjuna aftur,“ segir Erna.