Öruggur sigur Selfoss í uppgjöri botnliðanna

Selfoss vann öruggan sigur á Fylki í uppgjöri botnliðanna í Olís-deild kvenna í handbolta í kvöld. Liðin mættust í Árbænum og þar vann Selfoss 21-30.

Selfoss hafði góð tök á leiknum allan tímann og leiddi í leikhléi, 10-17. Selfoss náði mest ellefu marka forskoti í síðari hálfleik, 18-29, en Fylkir klóraði aðeins í bakkann á lokamínútunum.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var í stuði í kvöld og skoraði 11 mörk fyrir Selfoss, Carmen Palamariu 7, Dijana Radojevic 6, Adina Ghidoarca 3, Perla Ruth Albertsdóttir 2 og Ásta Margrét Jónsdóttir 1.

Selfoss hefur nú 6 stig í 7. sæti deildarinnar en Fylkir er í botnsætinu með 4 stig.

Fyrri greinEymdin alelda
Næsta greinGuðmundur Karl íþróttamaður Ölfuss 2016