Selfoss féll úr leik í 8-liða úrslitum Coca-Cola bikars karla í handbolta í kvöld þegar liðið tapaði fyrir Haukum á útivelli, 31-28.
Selfyssingar völtuðu yfir Hauka í upphafi leiks og náðu mest sex marka forskoti, 2-8. Haukarnir komust þá í gang og söxuðu jafnt og þétt á forskotið. Staðan var 14-15 í hálfleik, Selfoss í vil.
Í síðari hálfleik reyndust Haukar sterkari og náðu mest fimm marka forskoti, 30-25, seint í leiknum. Ellefu marka sveifla frá 11. mínútu leiksins. Selfoss klóraði aðeins í bakkann í leikslok en forskot Hauka var orðið of stórt og því fór sem fór.
Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 10 mörk, Teitur Örn Einarsson skoraði 6/5, Guðni Ingvarsson 4, Alexander Egan 3, Hergeir Grímsson og Einar Sverrisson 2 og Sverrir Pálsson 1.
Markverðir Selfoss náðu sér ekki á strik. Einar Vilmundarson varði 6 skot og Helgi Hlynsson 5 á meðan Giedrius Morkunas, markvörður Hauka, klukkaði 20 bolta.