Selfoss vann gríðarlega mikilvægan sigur á Akureyri í fallbaráttu Olísdeildar karla í handbolta í kvöld. Liðin mættust á Akureyri þar sem Selfoss sigraði 24-26.
„Við vorum búnir að ákveða að vera „aggressívir“ frá fyrstu mínútu og mæta þeim framarlega á vellinum. Svo í seinni hálfleik spilum við gífurlega góða vörn. Þeir setja svo aukamann inn á í lokin og við fáum fullt af brottvísunum. Okkur tókst þó að sigla þessu í höfn. Mér fannst við klókir undir lokin,” sagði Stefán Árnason, þjálfari Selfoss, í samtali við Morgunblaðið.
Selfoss byrjaði af miklum krafti og náði mest sex marka forystu í fyrri hálfleik, 3-9. Akureyringar klóruðu í bakkann en Selfoss skoraði síðasta markið í fyrri hálfleik og leiddi 11-15 í hálfleik.
Leikurinn virtist í nokkuð öruggum höndum Selfyssinga lengst af síðari hálfleik. Lokakfalinn varð þó æsispennandi. Þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir leiddi Selfoss 20-24 en þegar tuttugu sekúndur voru eftir unnu Akureyringar boltann og minnkuðu muninn í eitt mark, 24-25. Þeir vínrauðu héldu þó haus og náðu að skora í síðustu sókninni.
Selfoss á fjóra leiki eftir í deildinni og er með 20 stig í 7. sæti, þremur stigum á undan Akureyri sem er í 9. sætinu.
Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 10 mörk, Teitur Örn Einarsson skoraði 5/3, Hergeir Grímsson og Einar Sverrisson 4, Guðni Ingvarsson 2 og Alexander Már Egan 1. Helgi Hlynsson varði 10/1 skot í marki Selfoss.