„Ég fékk niðurstöðurnar úr myndatöku í hádeginu [í gær] og það er ljóst að ég er með slitið krossband,“ segir Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, landsliðskona í handbolta, og einn albesti leikmaður Olís-deildarinnar.
Morgunblaðið greindi frá þessu í gær.
Hanna sleit fremra krossband í vinstra hné, í landsleik gegn Hollandi fyrir helgi, og má reikna með að hún verði frá keppni í 9-12 mánuði. Hún mun því varla spila fleiri leiki með Selfossi á þessu ári, og verður að fresta áformum sínum um að fara utan í atvinnumennsku.
„Þetta er pínu áfall og svekkjandi, en svona er lífið þegar maður er í íþróttum. Það þurfa allir að taka út sinn skammt af meiðslum. Maður lítur bara á þetta sem verkefni sem ég þarf að leysa og vonandi kem ég sterkari til baka,“ sagði Hanna í samtali við mbl.is.
Meiðsli Hönnu eru ekki bara áfall fyrir hana sjálfa heldur einnig íslenska landsliðið og Selfoss. Selfyssingar eru væntanlega á leið í umspil við lið úr 1. deild um sæti í Olís-deildinni á næstu leiktíð, og Hanna þarf nú að treysta á liðsfélagana:
„Ég hef fulla trú á þeim. Það kemur bara maður í manns stað og vonandi sýna þær hvað í þeim býr, eins og þær hafa oft gert áður,“ sagði Hanna.