Knattspyrnukonurnar Brynja Valgeirsdóttir, Íris Sverrisdóttir og Karen Inga Bergsdóttir framlengdu á dögunum samninga sína við knattspyrnudeild Selfoss og munu leika með liði Selfoss í 1. deild kvenna í sumar.
Íris er 24 ára miðjumaður, Brynja 24 ára varnarmaður og Karen Inga 23 ára varnarmaður.
„Ég er mjög ánægður með að Brynja, Íris og Karen hafi framlengt samninga sína. Þær eru búnar að vera lengi í meistaraflokki Selfoss og búa yfir mikilli reynslu sem nýtist liðinu vel. Þær eru góðar fyrirmyndir fyrir yngri leikmenn og leggja sig alltaf allar fram fyrir félagið sitt,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss.
Þremenningarnir hafa allar leikið lengi með Selfoss, Íris lék sína fyrstu meistaraflokksleiki sextán ára gömul árið 2009 og hefur leikið 97 leiki fyrir félagið, Karen Inga 69 leiki og Brynja 47.