Stórskyttan Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, leikmaður Selfoss, var valin í úrvalslið Olís-deildar kvenna í vetur. Það voru þjálfarar í deildinni sem kusu í liðið.
Hrafnhildur Hanna lék 18 leiki með Selfyssingum í deildinni í vetur áður en hún sleit krossband í vinstra hné í landsleik gegn Hollandi í marsmánuði.
Hún var einn albesti leikmaður deildarinnar í vetur og skoraði 174 mörk fyrir Selfoss. Hún var langmarkahæsti leikmaður Olísdeildarinnar, þrátt fyrir að hafa misst af síðustu þremur leikjum Selfoss vegna meiðslanna.
Selfossliðið hafnaði í 7. sæti og fer í umspil um sæti í úrvalsdeildinni. Liðið mætir HK í 4-liða úrslitum og er fyrsti leikur liðanna að kvöldi sumardagsins fyrsta, á Selfossi kl. 19:30.
Úrvalslið Olísdeildar kvenna:
Markvörður: Guðrún Ósk Maríasdóttir, Fram
Línumaður: Steinunn Björnsdóttir, Fram
Vinstra horn: Unnur Ómarsdóttir, Grótta
Hægra horn: Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Grótta
Vinstri skytta: Diana Satkauskaite, Valur
Hægri skytta: Solveig Lára Kjærnested, Stjarnan
Miðjumaður: Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, Selfoss
Besti varnarmaður: Steinunn Björnsdóttir, Fram