Kvennalið Selfoss vann öruggan sigur á HK í kvöld í fyrsta leik umspilsins um sæti í Olísdeild kvenna. Lokatölur í Vallaskóla urðu 26-18.
Selfoss hafði frumkvæðið framan af leiknum og komst í 4-1, en HK náði að jafna, 6-6, þegar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum. Selfoss kláraði fyrri hálfleikinn hins vegar vel og leiddi 12-9 í leikhléi.
Í síðari hálfleik var aldrei spurning hvort liðið væri sterkara. Selfoss skoraði fyrstu fjögur mörkin og komst í 16-9. Það forskot reyndist heimakonum nokkuð þægilegt, HK náði að minnka muninn niður í fimm mörk, 20-15, en þá spýttu Selfyssingar aftur í lófana og kláruðu leikinn af krafti.
Dijana Radojevic var markahæst hjá Selfyssingum í kvöld með 9/7 mörk. Kristrún Steinþórsdóttir og Perla Albertsdóttir skoruðu báðar 5 mörk og voru báðar mjög öflugar í vörninni hjá Selfyssingum. Adina Ghidoarca skoraði 4 mörk, Carmen Palamariu 2 og Ída Bjarklind Magnúsdóttir 1.
Katrín Ósk Magnúsdóttir var frábær í marki Selfoss, varði 22/1 skot og var með 58% markvörslu. Dröfn Sveinsdóttir varði 1 skot og var með 33% markvörslu.
Liðin mætast aftur í Digranesi á sunnudag en það lið sem fyrr sigrar tvo leiki mætir KA/Þór eða FH í úrslitaeinvígi um sæti í Olísdeildinni. Komi til oddaleiks í viðureign Selfoss og HK verður hann á Selfossi miðvikudaginn 26. apríl.