Selfyssingar eru komnir í 32-liða úrslit í Borgunarbikar karla í knattspyrnu eftir auðveldan sigur á 4. deildarliði Kormáks/Hvatar á Selfossvelli í kvöld. Lokatölur urðu 8-0.
Selfoss gerði út um leikinn á fimm mínútna kafla í upphafi leiks þar sem liðið skoraði þrjú mörk. Fyrst skoraði Elvar Ingi Vignisson, síðan Alfi Conteh og þá JC Mack. Staðan orðin 3-0 þegar aðeins átta mínútur voru liðnar.
Heimamenn lágu í sókn allan leikinn, en eins og tölurnar benda til var þetta leikur kattarins að músinni. Alfi Conteh bætti fjórða marki Selfoss við á 33. mínútu og JC skoraði fimmta markið með góðu skoti utan af velli á 42. mínútu. 5-0 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var aðeins rólegri, enda leikmenn orðnir blautir og kaldir. Það snjóaði duglega á köflum í leiknum og vindurinn hafði talsverð áhrif á leikinn. Selfyssingum gekk ekki eins vel að stýra knettinum með vindinn í bakið.
Pachu skoraði sjötta mark Selfoss beint úr aukaspyrnu á 51. mínútu og Alfi Conteh bætti við tveimur mörkum til viðbótar á 60. og 73. mínútu. Fjögur mörk hjá kappanum.
Lokatölur leiksins urðu 8-0 en þetta er þriðji stærsti bikarsigur Selfyssinga frá upphafi. Liðið vann Hveragerði 10-1 árið 1970 og Þrótt Vogum 16-1 árið 2000.
Á morgun kemur í ljós hvaða lið fylgja Selfyssingum í pottinn þegar dregið verður í 32-liða úrslitin. Meðal leikja morgundagsins eru Árborg-Hamar, Stokkseyri-Leiknir, Berserkir-KFR og Álftanes-Ægir.