Selfyssingar eru komnir í 2-0 í einvíginu gegn KA/Þór í umspili um sæti í Olís-deild kvenna í handbolta á næstu leiktíð. Selfoss sigraði í leik tvö á Akureyri í kvöld, 20-24.
Leikurinn var spennandi og skemmtilegur og vörn og markvarsla í hávegum höfð. Staðan var 7-9 í leikhléi, Selfyssingum í vil.
Selfoss náði svo að byggja upp sex marka forskot í síðari hálfleik, 14-20, en þá komu fimm mörk í röð frá KA/Þór sem minnkaði muninn í tvö mörk, 19-21, þegar þrjár mínútur voru eftir.
Nær komust norðankonur ekki og Selfoss bætti við forskotið á lokamínútunum.
Dijana Radojevic var markahæst Selfyssinga með 9/4 mörk, Kristrún Steinþórsdóttir skoraði 6, Adina Ghidoarca 4, Perla Albertsdóttir og Hulda Þrastardóttir 2 og Carmen Palamariu 1.
Katrín Ósk Magnúsdóttir átti góðan leik í markinu, varði 20/1 skot og var með 50% markvörslu.
Þriðji leikur liðanna verður á Selfossi á föstudagskvöld kl. 20:15 og þar geta Selfyssingar tryggt sér sæti í Olísdeildinni með sigri.