Selfoss tapaði 1-2 fyrir Þrótti R á JÁVERK-vellinum á Selfossi í dag þegar keppni hófst í 1. deild kvenna í knattspyrnu.
Leikurinn var tíðindalaus lengst af, fátt um færi og vindurinn hafði töluverð áhrif á leikinn. Síðustu tuttugu mínúturnar voru þó fjörugar en á 70. mínútu komst Þróttur í 0-1 með marki úr skyndisókn upp hægri kantinn.
Á 81. mínútu jafnaði Kristrún Rut Antonsdóttir metin með glæsilegu skallamarki eftir hornspyrnu Önnu Maríu Friðgeirsdóttur. Bæði lið gerðu sig líkleg á lokakaflanum en það voru Þróttarar sem komu knettinum í netið.
Selfyssingar misstu boltann á slæmum stað á eigin vallarhelmingi á 89. mínútu og Þróttarar refsuðu með góðu marki.
Næsti leikur Selfoss er á föstudagskvöld þegar liðið heimsækir Víking í Ólafsvík.