Magnaður sigur Ægis á Akureyri – Selfoss marði Kára

Þriðjudeildarlið Ægis í Þorlákshöfn gerði sér lítið fyrir og sló 1. deildarlið Þórs Akureyri út í 32-liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu á Þórsvellinum á Akureyri í kvöld.

Ægismenn vörðust fimlega allan leikinn og var staðan 0-0 að loknum venjulegum leiktíma og framlengingu. Því var gripið til vítaspyrnukeppni en þar var Magnús Anderson, markvörður Ægis, hetjan, því hann varði fjórðu spyrnu Þórsara. Ægir skoraði úr öllum sínum spyrnum og sigraði 3-5. David Sinclair, Aco Pandurevic, Jonathan Hood og Gunnar Bent Helgason höfðu skorað fyrir Ægi áður en Þorkell Þráinsson fyrirliði tryggði Ægi sigurinn með fimmtu spyrnunni.

Þetta er í fyrsta skipti í sögu félagsins sem Ægir kemst í 16-liða úrslit bikarkeppninnar.

Á Selfossi tóku heimamenn, sem leika í 1. deildinni, á móti 3. deildarliði Kára. Hlutirnir litu vel út fyrir Selfyssinga í upphafi því þeir komust í 2-0 á fyrsta korterinu með mörkum fá Alfi Conteh og JC Mack. Káramenn minnkuðu muninn á 21. mínútu og staðan var 2-1 í hálfleik. Gestirnir náðu svo að jafna á 61. mínútu og allt leit út fyrir að leikurinn færi í framlengingu. Varamaður Elvar Ingi Vignisson var hins vegar ekki á því en hann tryggði Selfyssingum sigurinn með glæsilegu skallamarki þegar tvær mínútur voru eftir. Lokatölur 3-2.

Fyrri greinSelfyssingar fá 15 milljónir úr Mannvirkjasjóði
Næsta greinSauðfé tekið úr vörslu eiganda