Selfoss vann góðan útisigur á Tindastóli í 1. deild kvenna í knattspyrnu í dag. Lokatölur á Sauðárkróksvelli urðu 1-4.
Erna Guðjónsdóttir kom Selfyssingum á bragðið strax á 5. mínútu með glæsilegu skallamarki. Fimmtán mínútum síðar bætti Magdalena Reimus við marki og staðan var 0-2 í hálfleik.
Tindastóll minnkaði muninn þegar tæpar fimmtán mínútur voru liðnar af síðari hálfleik, en Selfyssingar létu það ekki slá sig út af laginu og Kristrún Rut Antinsdóttir skoraði þriðja markið á 70. mínútu.
Eva Lind Elíasdóttir bætti svo fjórða marki Selfoss við á 90. mínútu og tryggði liðinu 1-4 sigur.
Þegar fjórum umferðum er lokið er stöðutaflan í 1. deildinni mjög athyglisverð. Selfoss er í 5. sæti deildarinnar mðe 6 stig, en pakkinn er gríðarlega þéttur og munar aðeins þremur stigum á liðinu í 2. sæti og liðinu í 8. sæti. HK/Víkingur og Keflavík eru í 1.-2. sæti með 9 stig, en HK/Víkingur á leik til góða.