Selfoss valtaði yfir ÍA á útivelli í 1. deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur á Skaganum urðu 1-5.
Selfyssingar gerðu út um leikinn á átta mínútna kafla í upphafi leiks þar sem liðið skoraði fjögur mörk. Magdalena Reimus kom liðinu í 0-1 á 13. mínútu og einni mínútu síðar bætti Eva Lind Elíasdóttir við marki.
Magdalena var aftur á ferðinni á 20. mínútu með marki úr vítaspyrnu og á 21. mínútu bætti Anna María Friðgeirsdóttir fjórða markinu við. Ótrúlegur kafli.
Staðan var 0-4 í leikhléi en ÍA náði að klóra í bakkann á upphafsmínútum síðari hálfleiks. Barbára Sól Gísladóttir sá hins vegar til þess að Selfoss ynni fjögurra marka sigur þegar hún skoraði fimmta mark Selfoss á 75. mínútu. Lokatölur 1-5.
Selfoss fór upp í 3. sæti deildarinnar með sigrinum og hefur 10 stig.