Selfoss vann öruggan sigur á Keflavík í mikilvægum leik í toppbaráttu 1. deildar kvenna í knattspyrnu á JÁVERK-vellinum í kvöld. Lokatölur urðu 2-0.
„Þetta var ótrúlega vel gert, Keflavík spilaði leik fyrir tveimur dögum og við notfærðum okkur það og keyrðum bara á þær. Uppleggið var að mæta þeim af fullum krafti og það tókst, þær voru alveg sprungnar og ógnuðu okkur lítið. Ég tek ekkert af okkar stelpum samt, við spiluðum betur sem lið og uppskárum tvö góð mörk eftir hornspyrnur. Það var annar hlutur sem var lagt upp með, að skora úr föstu leikatriði,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. „Við fögnum þessu í kvöld og njótum hamingjunnar sem er hérna í loftinu. Svo er það bara næsti leikur á Akureyri gegn Hömrunum sem eru með mjög sterkt lið.“
Selfoss byrjaði leikinn af krafti og komst yfir strax á 2. mínútu þegar Kristrún Rut Antonsdóttir skallaði boltann inn eftir hornspyrnu. Á 18. mínútu fengu Selfyssingar næstu hornspyrnu og eftir baráttu í vítateignum kom Karitas Tómasdóttir knettinum í netið.
Skömmu síðar áttu Selfyssingar að fá vítaspyrnu þegar Eva Lind Elíasdóttir var felld í vítateignum, en dómarinn sá einhverra hluta vegna ekki ástæðu til þess að flauta. Annars voru tíðindin ekki fleiri í fyrri hálfleik og leikurinn í öruggum höndum Selfyssinga.
Seinni hálfleikurinn spilaðist svipað og sá fyrri en þegar leið á leikinn þyngdust sóknir Selfoss, án þess þó að liðið næði að skapa sér opin færi. Keflavík átti engin færi í leiknum, tvö örvæntingarfull skot utan af velli sem Chanté Sandiford átti ekki í vandræðum með í marki Selfoss.
Selfoss er nú í 3. sæti deildarinnar með 13 stig, en Keflavík í 4. sætinu með 11 stig.