Selfoss og Fram gerðu 1-1 jafntefli í toppbaráttu Inkasso-deildarinnar í knattspyrnu á JÁVERK-vellinum á Selfossi í kvöld. Selfyssingar fengu betri færi til að klára leikinn.
„Ég var mjög ánægður með þennan leik. Ég er leiður yfir því að hafa ekki unnið en mér fannst við bara flottir og liðsheildin góð. Mér fannst við sýna yfirburði allan leikinn. Þess vegna er ég auðvitað óánægður með að ná ekki sigri en svona er bara fótboltinn. Stundum færðu stig sem þú átt ekki skilið og stundum færðu ekki stig sem þú átt skilið,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Þetta var skemmtilegur leikur, mikið tempó og Framararnir bara flottir líka. Við erum búnir að tapa einum heimaleik í sumar og erum að bæta árangurinn á heimavelli sem var mjög slæmur í fyrra. Við erum vonandi að ná að gera JÁVERK-völlinn að óvinnandi vígi. Það var eitt að markmiðunum okkar í ár,“ bætti Gunnar við.
Þó að leikurinn hafi verið jafn þá ógnuðu Selfyssingar mun meira og fóru illa með dauðafæri. Framarar áttu hins vegar eitt alvöru skot á rammann, í stöngina og inn. „Þeir áttu eitt skot í leiknum og skoruðu vissulega geðveikt mark. Hvað getur maður gert í svona mörkum? Við erum glaðir með frammistöðuna en grátum stigin tvö sem fóru eitthvað út í kosmósið,“ sagði Gunnar að lokum.
Alfi Conteh-Lacalle skoraði fyrir Selfoss á 12. mínútu og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks. Selfyssingar voru sterkari í fyrri hálfleiknum en færin voru ekki mörg.
Seinni hálfleikurinn var jafnari og stórskemmtilegur. Liðin börðust í hröðum og hörðum leik en áfram voru það Selfyssingar sem voru að skapa færin. Framarar skoruðu draumamark á 58. mínútu þegar Orri Gunnarsson hamraði boltann viðstöðulaust í stöngina og inn en eftir það ógnuðu Selfyssingar meira.
Svavar Berg Jóhannsson og Alfi Conteh fengu báðir dauðafæri á sömu mínútunni þegar níu mínútur voru eftir af leiknum og hefðu vissulega átt að nýta þau betur. Allt kom fyrir ekki og Selfoss er áfram í 5. sæti deildarinnar, nú með 14 stig en Fram er í 4. sæti með 15 stig.