Guðrún Heiða og Kristinn Íslandsmeistarar

Keppendur frá HSK/Selfoss kræktu í tvo Íslandsmeistaratitla og ein silfurverðlaun á fyrri keppnisdegi Meistaramóts Íslands í frjálsum íþróttum á Selfossvelli í dag.

Guðrún Heiða Bjarnadóttir bætti sinn besta árangur í langstökki og sigraði með stökk upp á 5,78 m. Hún hjó þar nálægt HSK meti Ingibjargar Ívarsdóttur sem er 5,86 m, sett árið 1985. Stökk Guðrúnar Heiðu er hins vegar héraðsmet í flokki 20-22 ára en fyrra metið þar var einnig 32 ára gamalt en það átti Birgitta Guðjónsdóttir, 5,74 m.

Kristinn Þór Kristinsson sigraði í 1.500 metra hlaupi karla á tímanum 4:00,40 mín. og Ástþór Jón Tryggvason náði silfurverðlaununum í 3.000 metra hindrunarhlaupi. Tími Ástþórs var 10:37,26 mín. og var hann aðeins tólf sekúndum frá HSK metinu í flokki 18-19 ára, en það met hefur staðið óhaggað frá árinu 1989 þegar Steindór Guðmundsson hljóp á 10:25,1 mín.

Að loknum fyrri keppnisdegi er lið HSK/Selfoss í 4. sæti stigakeppninnar með 5.440 stig. Baráttan er hins vegar á milli FH og ÍR en FH er með 23.805 stig í 1. sæti.


Ástþór Jón Tryggvason varð í 2. sæti í 3.000 m hindrunarhlaupi. Þetta var í fyrsta sinn sem keppt er í hindrunarhlaupi á Selfossvelli. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinÞyrla kölluð út vegna hjólreiðaslyss
Næsta greinÆgir og Stokkseyri töpuðu