Kvennalið Selfoss gerði 0-0 jafntefli við Þrótt R. á útivelli í kvöld. Selfoss var sterkari aðilinn í leiknum en tókst ekki að skora.
Selfoss byrjaði leikinn af miklum krafti og skapaði sér góð færi sem fóru forgörðum. Þegar leið á fyrri hálfleikinn jafnaðist leikurinn en Þróttarar fengu fá færi gegn góðri vörn Selfoss.
Seinni hálfleikurinn byrjaði líkt og sá fyrri endaði en þegar líða fór að leikslokum tóku Selfyssingar öll völd á vellinum. Færin voru þó ekki mörg og þegar upp var staðið þurftu liðin að sættast á skiptan hlut.
Þróttarar eru væntanlega þakklátir fyrir að ná stigi út úr leiknum en það dugði þeim til þess að komast í toppsætið. Þróttur hefur 19 stig í 1. sæti en Selfoss 17 stig í 3. sæti. Þar á milli er HK/Víkingur með 18 stig og leik til góða. Selfoss tekur einmitt á móti HK/Víkingi á sunnudag í sex stiga leik.