Slök frammistaða á Ásvöllum

Selfoss varð af mikilvægum stigum í Inkasso-deildinni í knattspyrnu í kvöld þegar liðið tapaði fyrir Haukum, 2-1, á Ásvöllum í Hafnarfirði.

„Frammistaðan var léleg. Við áttum kafla inn á milli, en í heildina var þetta slakur leikur,” sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik.

Haukar komust yfir strax á 7. mínútu með skallamarki Daníels Guðlaugssonar eftir fyrirgjöf. Í kjölfarið voru sterkari en Selfyssingar spýttu í lófana þegar leið að leikhléi án þess þó að ná að skora. Staðan var 1-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn hófst eins og sá fyrri, á marki Hauka. Daníel skoraði þá aftur eftir slæm mistök í vörn Selfoss. Þeir vínrauðu héldu áfram að berjast og JC Mack minnkaði muninn í 2-1 á 63. mínútu, eftir aukaspyrnu Þorsteins Daníels Þorsteinssonar.

Leikurinn fjaraði út á lokakaflanum og fátt var um færi á báða bóga. Haukar fögnuðu því sigri og komust með honum upp fyrir Selfyssinga á stigatöflunni. Selfoss hefur sigið niður í 6. sætið með 15 stig en Haukar eru í 5. sæti með 16 stig.

Fyrri greinHamar slátraði Ísbirninum
Næsta greinKlemmdist undir bifreið á gámasvæðinu