Tvö mörk í uppbótartíma tryggðu Selfyssingum sætan útisigur á ÍR í Inkasso-deildinni í knattspyrnu í dag. Selfoss sigraði 1-3.
ÍR-ingar voru sterkari í fyrri hálfleiknum og komust yfir strax á 9. mínútu. Staðan var 1-0 allt þar til á 67. mínútu að Elvar Ingi Vignisson jafnaði metin fyrir Selfoss.
Lokakaflinn var æsispennandi þar sem bæði lið fengu færi. Það var þó ekki fyrr en á 2. mínútu uppbótartíma að Andy Pew kom boltanum í netið með viðkomu í Svavari Berg Jóhannssyni. ÍR fékk hornspyrnu í næstu sókn og fór með allan sinn mannskap inn í teig en þeir misstu boltann og Pachu hljóp upp allan völlinn með knöttinn og renndi honum í tómt markið.
Sigurinn lyfti Selfyssingum upp í 5. sætið með 18 stig, en ÍR hefur 11 stig í 10. sæti.
Eftir slakt gengi í síðustu leikjum var Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, ánægður með að ná í þrjú stig.„Við fórum aðeins yfir þessa hluti sem við höfum verið að ræða, við vorum ólíkir sjálfum okkur í síðasta leik vorum langt frá mönnum og svolítið hauslausir og vorum það í fyrri hálfleik í dag við löguðum aðeins til í leikstílnum hjá okkur þéttum miðsvæðið og gera hlutin á einfaldari hátt,” sagði Gunnar í samtali við fotbolti.net eftir leik.