Selfoss komst tvisvar yfir þegar þeir tóku á móti Þórsurum í Inkasso-deild karla í knattspyrnu í dag. Þórsarar svöruðu hins vegar þrisvar fyrir sig og uppskáru sigurmark í uppbótartíma, 2-3.
Leikurinn var í járnum framan af en þegar leið á fyrri hálfleikinn höfðu Þórsarar yfirhöndina. Þeir pressuðu Selfyssinga vel en sköpuðu sér ekki mörg færi. Þó skall hurð nærri hælum á 22. mínútu þegar Guðjón Orri Sigurjónsson, markvörður Selfoss, náði með naumindum að verja langskot Þórsara í þverslána og yfir.
Það var því nokkuð gegn gangi leiksins að Selfyssingar komust yfir á 43. mínútu með marki frá JC Mack. Varnarmaður Þórs var undir pressu frá Elvari Inga Vignissyni og skallaði boltann fyrir fætur JC í teignum. Bandaríkjamaðurinn átti ekki í neinum vandræðum með að renna boltanum í tómt markið.
Staðan var 1-0 í hálfleik en Þórsarar náðu að jafna á níundu mínútu seinni hálfleiks eftir að Selfyssingar gleymdu sér í vörninni. Staðan 1-1 en eftir það voru heimamenn sterkari og komust tvívegis nálægt því að skora. Boltinn fór þó ekki í netið fyrr en á 73. mínútu að Svavar Berg Jóhannsson kom Selfyssingum í 2-1 með frábæru marki.
Guðjón Orri Sigurjónsson tók útspark með vindi, boltinn skoppaði yfir varnarmann Þórs og Svavar kom á ferðinni og skallaði boltann í stöngina og inn.
Selfoss hélt forystunni ekki nema í fimm mínútur. Þórsarar nýttu sér þá aftur sofandaháttinn í vörn heimamanna sem horfðu á boltann fara í stöngina og inn.
Það var mikil dramatík í uppbótartímanum en á 91. mínútu slapp Pachu einn innfyrir en renndi boltanum framhjá, úr líklega besta færi leiksins. Þórsarar sneru vörn í sókn og nokkrum sekúndum síðar lá boltinn í netinu hinu megin. Búið!
Selfyssingar eru í 6. sæti deildarinnar með 18 stig en Þórsarar juku forskotið með sigrinum í dag og hafa 22 stig í 4. sæti.