Sunnlendingar áttu þrjá keppendur á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar sem lauk í Györ í Ungverjalandi í dag. Það voru þau Helga Margrét Óskarsdóttir, Martin Bjarni Guðmundsson og Haukur Þrastarson.
Ólympíuhátíðin hófst síðastliðinn sunnudag en Ísland sendi óvenju stóran hóp til leiks, 34 keppendur í sex íþróttagreinum.
Haukur Þrastarson mætti til leiks með U17 ára landsliðinu í handbolta en íslenska liðið varð í 8. sæti á mótinu eftir 29-24 tap gegn Ungverjum í leik um 7. sætið. Haukur var markahæstur Íslendinga í úrslitaleiknum með 6 mörk. Hann stóð sig vel á mótinu og var iðulega meðal markahæstu leikmanna íslenska liðsins.
Martin Bjarni keppti í fimleikum á mótinu en í liðakeppninni varð íslenska liðið í 17. sæti á mótinu. Martin Bjarni fékk hæstu einkunn íslensku keppendanna, 67,35. Besta einkunn Martins var 13,10 fyrir stökk.
Helga Margrét keppti í spjótkasti og kastaði 37,84 metra. Hún varð í 9. sæti í A-kasthóp og var nálægt sínum besta árangri. Hún var einnig í sveit Íslands í 4×100 m boðhlaupi sem varð í 13. sæti af nítján sveitum á tímanum 48,32 sek.
Fjórði Sunnlendingurinn í íslenska hópnum í Ungverjalandi var Örvar Ólafsson, sem var aðalfararstjóri hópsins.