Selfoss tapaði 1-2 þegar nýbakað topplið Inkasso-deildarinnar í knattspyrnu, Keflavík, kom í heimsókn á Jáverk-völlinn í kvöld.
„Við virkuðum stressaðir í upphafi því við vitum að þeir hafa hraða fram á við og gæði í leikmönnum. Svo náum við að byggja ofan á það og spila okkar leik í fyrri hálfleik, og það var eiginlega svipað í seinni hálfleiknum. Við fengum hins vegar ekki mörg færi, hlaupin voru ágæt en við náum ekki að renna boltanum inn í svæðið,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Gestirnir byrjuðu af miklum krafti gegn óstyrkri vörn Selfossliðsins og Jeppe Hansen kom þeim yfir strax á 3. mínútu. Keflvíkingar hefðu getað bætt við fleiri mörkum á upphafskaflanum en Selfyssingar stóðu af sér storminn og komu sér inn í leikinn.
Síðustu 25 mínúturnar í fyrri hálfleik voru Selfyssingar betra liðið á vellinum en náðu ekki að skapa sér færi gegn sterkri vörn Keflvíkinga.
Staðan var 0-1 í hálfleik en Keflvíkingar tvöfölduðu forskotið strax á 52. mínútu þegar Marc McAusland skallaði aukaspyrnu, sem aldrei hefði átt að vera dæmd, í netið. Dýrt fyrir Selfyssinga að ná ekki að verjast betur.
Tíu mínútum síðar minnkaði Svavar Berg Jóhannsson muninn með skoti af stuttu færi. Keflvíkingar fengu tvö góð færi í kjölfarið en Guðjón Orri Sigurjónsson varði allt sem að marki Selfoss kom.
Selfoss sótti og sótti og fengu sitt besta færi til að jafna í uppbótartímanum þegar Ingi Rafn Ingibergsson skaut framhjá af stuttu færi eftir langt innkast.
Keflavík tyllti sér á toppinn með sigrinum en Selfoss situr í 7. sætinu með 21 stig, tíu stigum á eftir toppliðinu.