Selfoss vann gríðarlega mikilvægan sigur á Keflavík í 1. deild kvenna í knattspyrnu í kvöld, þegar liðin mættust í Keflavík.
Lokatölur urðu 0-1 og Keflvíkingar eru þar með nánast úr leik í toppbaráttu deildarinnar. Selfyssingar sitja hins vegar áfram á toppnum, nú með 35 stig og eiga tvo leiki eftir. Þróttur og HK/Víkingur eru skammt undan og eiga þrjá leiki eftir.
Það var hart tekist á í Keflavík í kvöld en Magdalena Reimus skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum. Keflavík sótti mikið í lokin og Chanté Sandiford átti tvær frábærar markvörslur sem héldu Selfyssingum inni í leiknum. Selfoss bjargaði svo á línu í blálokin og fagnaði sigrinum innilega.
Næsti leikur liðsins er á sunnudag þegar Hamrarnir koma í heimsókn á Selfoss.