Selfoss tapaði fyrir Fylki í hörkuleik í Inkasso-deildinni í knattspyrnu á Selfossvelli í dag. Lokatölur urðu 1-2 og Fylkismenn komnir með annan fótinn upp í Pepsi-deildina.
„Ég er ánægður með strákana og liðið. Við skildum allt eftir á vellinum og gæðin voru líka til staðar svo það er ekki hægt að biðja um neitt annað,” sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik.
Í sex af síðustu níu leikjum hefur Selfoss fengið á sig mark á upphafsmínútunum en Fylkismenn komust yfir á 8. mínútu í kvöld. Skömmu áður höfðu Selfyssingar átt skot í þverslána og í kjölfar marksins áttu Selfyssingar fínar sóknir og virtust til alls líklegir.
Pachu jafnaði svo metin með marki úr vítaspyrnu á 29. mínútu eftir að brotið hafði verið á Leighton McIntosh. Eftir það var leikurinn í járnum en Fylkismenn áttu skot í þverlsá á 44. mínútu. 1-1 í hálfleik.
Seinni hálfleikurinn var jafn og bæði lið sýndu prýðilega takta. Fylkismenn urðu þó fyrri til að nýta færi en það var á 68. mínútu að þeir fundu óvænta opnun á Selfossvörninni.
Eftir markið þjörmuðu Selfyssingar að Fylkismönnum, sérstaklega á lokakaflanum þar sem þeir vínrauðu reyndu allt hvað af tók að skora en tókst ekki að skapa nægilega góð færi.
Selfoss hefur 24 stig í 9. sæti deildarinnar en Fylkir er í 2. sæti með 39 stig.