Selfoss tryggði sér í dag sæti í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu þrátt fyrir 1-0 tap gegn deildarmeisturum HK/Víkings í Kórnum í Kópavogi. Selfoss hreppti silfrið og fer upp.
„Ég er eiginlega bara drullusvekkt. Ég veit að sætið í Pepsi-deildinni er í höfn en okkur langaði að fá bikarinn og vinna þessa deild. Ég jafna mig nú samt örugglega á þessu og auðvitað var aðalatriðið að komast upp um deild. Við vorum ekki góðar í fyrri hálfleik í dag en geggjaðar í seinni hálfleik og óheppnar að skora ekki. Við áttum að fá vítaspyrnu oftar en einu sinni en dómarinn var ekki sammála því og hlutirnir voru kannski ekki alveg að falla með okkur,“ sagði Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik. Hún hrósaði stuðningsmönnum liðsins sérstaklega.
„Við fengum frábæran stuðning í dag og mig langar til þess að hrósa þessum geggjuðu stuðningsmönnum sem við eigum. Við áttum stúkuna og þú sérð að okkar fólk er ennþá hérna núna tuttugu mínútum eftir leik að klappa fyrir okkur á meðan stúkan er tóm HK-megin. Þetta er bara geggjað,“ sagði Anna María. Og hún segir Selfyssinga tilbúna í Pepsi-deildina.
„Það er ekki spurning. Við áttum ekki að falla í fyrra en við erum búnar að vera að spila í sterkri 1. deild í sumar og það er Pepsi-hefð á Selfossi. Við vitum hvað við erum að fara útí og eigum svo sannarlega heima í deild þeirra bestu.“
Fyrri hálfleikurinn var ekki góður af hálfu Selfyssinga og heimamenn komust yfir eftir tæpan hálftíma með marki frá Milena Pesic. Selfyssingar voru sterkari í síðari hálfleik en voru óheppnir að ná ekki að skora. HK/Víkingur átti einnig ágætis færi en fleiri urðu mörkin ekki og lokastaðan 1-0.
HK/Víkingur varð því deildarmeistari með 39 stig og Selfoss í 2. sæti með 36 stig, jafnmörg og Þróttur R, en með talsvert betra markahlutfall.