Dramatík í Dalhúsum

Það var mikil dramatík á lokamínútunum þegar Selfoss sótti Fjölni heim í Dalhús í Grafarvogi í Olís-deild kvenna í handbolta í kvöld. Sigurmark var dæmt af Selfyssingum á lokasekúndunni.

Fyrri hálfleikur var jafn framan af en liðunum gekk illa að koma boltanum í netið. Fjölnir var skrefinu á undan í upphafi en Selfoss skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks og leiddi 10-11 í leikhléi.

Í seinni hálfleik var jafnt á öllum tölum þar til á síðustu fimm mínútunum að Selfoss náði tveggja marka forskoti, 15-17. Fjölnir skoraði þá tvö í röð og jafnaði þegar nokkrar sekúndur voru eftir. Selfoss tók hraða miðju og Perla Albertsdóttir skaut frá miðju í tómt mark Fjölnis. Eftir löng fundahöld dæmdu dómararnir markið ógilt og töldu Perlu hafa stigið yfir miðlínuna. Lokatölur 17-17.

Harpa Brynjarsdóttir var markahæst Selfyssinga með 6/2 mörk, Perla Albertsdóttir skoraði 5, Kristrún Steinþórsdóttir 2 og þær Hulda Þrastardóttir, Ída Magnúsdóttir, Arna Kistín Einarsdóttir og Katla María Magnúsdóttir skoruðu allar 1 mark.

Viviann Petersen varði 11 skot í marki Selfoss.

Selfoss hefur nú þrjú stig eftir tvær umferðir og mætir næst ÍBV á heimavelli á laugardaginn.

Fyrri grein„Fer ekki vel að höggva í þann sem er veikastur fyrir“
Næsta greinVilja upplýsingar um kostnað við uppsögnina